Ferill 711. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1641  —  711. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Heimi Skarphéðinsson og Sigríði Valgeirsdóttur frá atvinnuvega- nýsköpunarráðuneytinu, Magnús Harðarson, Baldur Thorlacius og Árnínu Steinunni Kristjánsdóttur frá Nasdaq Iceland, Írisi Ólafsdóttur, Kristinn Aspelund og Nönnu Elísu Jakobsdóttur frá Samtökum sprotafyrirtækja, Þórð Magnússon frá Eyri Invest og Þórlind Kjartansson frá stýrihópi um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Arrowhead ehf., Bandalagi háskólamanna, Brunni Ventures GP ehf., Byggðastofnun, Nasdaq Iceland, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Samtökum leikjaframleiðenda, Samtökum sprotafyrirtækja, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Spectaflow, verkefnastjórn um mótun nýsköpunarstefnu og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofna skuli sérstakan sprota- og nýsköpunarsjóð, Kríu, sem hafi það hlutverk að fjárfesta í vísisjóðum sem sérhæfa sig í fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Markmið þessa sjóðs verði að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga. Í nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem birt var haustið 2019 er lögð áhersla á að einfalda þurfi starfsumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja, efla stoðkerfi, auka aðgengi að fjármagni og erlendum sérfræðingum og styðja við sókn á alþjóðavettvangi. Frumvarp þetta stuðlar að framangreindum markmiðum en lagt er til að stofna skuli sérstakan sprota- og nýsköpunarsjóð, Kríu, sem hafi það hlutverk að fjárfesta í vísisjóðum sem sérhæfa sig í fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Markmið þessa sjóðs verði að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.
    Nefndin bendir á mikilvægi þess að starfsemi Kríu geti hafist eins fljótt og auðið er og sjóðurinn hafi næga fjármuni til sinna verkefnum. Það er mikilvægur þáttur í því að kraftar nýsköpunar verði leystir úr læðingi í samræmi við markmið um að auka fjölbreytni í atvinnulífinu.

Heimild Kríu til fjármögnunar með fyrirvara.
    Eitt þeirra skilyrða sem fjallað um í greinargerð með frumvarpinu og lagt er til að nánar verði útfært í reglugerð sem ráðherra setur er að miðað verði við að eigið fé sérhæfðs sjóðs sem Kría fjárfestir í þurfi að vera á bilinu 3,5–4 milljarðar kr. að undanskildu framlagi Kríu. Miðað verði við að sjóðirnir hafi ekki hafið fjárfestingar þegar tekin er ákvörðun um aðkomu Kríu. Hugsanlega verði sjóðirnir ekki að fullu fjármagnaðir þegar tekin er ákvörðun um aðkomu Kríu og skal það þá vera með fyrirvara um endanlega stærð sjóðanna enda miðað við að þeir séu fjármagnaðir að mestu.
    Í umsögn Samtaka sprotafyrirtækja benda samtökin á að það geti verið hamlandi ef sjóðurinn getur eingöngu fjárfest í sjóðum sem hafa þegar fjármagnað sig. Betur færi á því að unnt væri að gefa út vilyrði um fjármögnun til sjóða þegar þeir hefja fjármögnun. Í því fælist trygging fyrir fjárfesta sem hygðust leggja sjóðnum fé til fjárfestingar.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur m.a. fram: „Hugsanlega eru sjóðirnir ekki að fullu fjármagnaðir þegar tekin er ákvörðun um aðkomu Kríu og skal það þá vera með fyrirvara um endanlega stærð sjóðanna enda miðað við að þeir séu fjármagnaðir að mestu. Útfærsla þessa verður ákveðin í reglugerð.“
    Nefndin hefur skilning á þessum sjónarmiðum og leggur til að þau verði höfð að leiðarljósi við mótun starfsreglna stjórnar, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins, og reglugerðar ráðherra, sbr. 8. gr., líkt og tekið er fram í greinargerð. Miðað verði við að Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóði verði mögulegt að veita vilyrði um fjárfestingu í sérhæfðum sjóði þrátt fyrir að hann hafi ekki verið fjármagnaður, enda verði hann fjármagnaður að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er til að gætt sé að skilyrðum 3. gr. um fjárfestingarhlutfall Kríu innan tiltekins tíma, áður en vilyrðið kemur til framkvæmda.
    Nefndin telur mikilvægt að þeir sem vinna að stofnun vísisjóða geti fengið vilyrði með framangreindum hætti.

Fjárfesting í hlutabréfum á markaði og sala á hlutum Kríu.
    Í umsögn Nasdaq Iceland komu fram athugasemdir og tillögur er lúta m.a. að því að Kríu verði heimilað að fjárfesta í hlutabréfum á markaði. Skortur sé á fjármagni til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja sem eru nýskráð á markað. Nefndin skilur þau sjónarmið sem liggja að baki tillögunni og tekur undir þau og leggur til að þau verði skoðuð sérstaklega. Nefndin telur þó að þau rúmist ekki innan þess ramma sem lagt var upp með fyrir Kríu. Fjárfesting í fyrirtækjum á markaði feli ekki endilega í sér aðkomu reyndra fjárfesta á sviði sprota- og nýsköpunarfyrirtækja, en tilgangur frumvarpsins er að styrkja betur það umhverfi og auka aðgengi að sérhæfðum fjárfestum sem leggja til þekkingu, reynslu og tengsl en ekki einvörðungu fjármagn.
    Nefndin fjallaði einnig um athugasemdir Nasdaq Iceland er lúta að því að öðrum fjárfestum í sérhæfðum sjóðnum bjóðist að kaupa hlut Kríu á fyrir fram ákveðnum kjörum að ákveðnum tíma liðnum þegar frumfjárfestingartímabili sjóðsins er lokið. Telur nefndin að slík sala samrýmist ekki markmiðum stjórnvalda og tilgangi frumvarpsins. Það sé ekki markmið að hámarka arðsemi af því fjármagni sem lagt er til nýsköpunarumhverfis heldur að stuðla að uppbyggingu og heilbrigðu vaxtarumhverfi. Með því komist ríkið hjá því að vera beinn þátttakandi í áhættufjárfestingum. Það kunni að vera óaðlaðandi fyrir einkafjárfesta á síðari stigum í rekstri sjóða að opinber aðili hafi beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta varðandi ákvarðanir sem varða einstök fyrirtæki í eignasafni sjóðs.

Skipan stjórnar.
    Þá fjallaði nefndin einnig um skipan stjórnar Kríu. Vill nefndin árétta mikilvægi þess, sem tekið er fram í greinargerð við frumvarpið, að í stjórn sjóðsins veljist einstaklingar með greinargóða þekkingu og reynslu af fjárfestingum, sprota- og nýsköpunarumhverfi og öðrum þeim þáttum er snúa að stjórn sjóðsins og að samsetning þekkingar stjórnarmanna verði með þeim hætti að hún sé í stakk búin til þess að hafa góðan og víðtækan skilning og yfirsýn yfir verkefni sjóðsins.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Ákvarðanir um fjárfestingu í sérhæfðum sjóðum (3. gr.).
    Í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins segir að stjórn skuli að jafnaði taka ákvarðanir um fjárfestingu í sérhæfðum sjóðum einu sinni á ári.
    Í umsögn Samtaka sprotafyrirtækja leggja samtökin til að ákvarðanir um fjárfestingu verði teknar oftar, slíkt leiði til betri samfellu í stofnun vísisjóða á Íslandi.
    Nefndin telur ekki þörf á að kveðið sé á um tíðni ákvarðana stjórnar um fjárfestingu í lögum, heldur hagi stjórn sjóðsins töku ákvarðana í samræmi við tilefni og þarfir hverju sinni. Auki það sveigjanleika sjóðsins, sem ætlað er að starfa í kviku umhverfi, til fjárfestinga og hvetji enn frekar til stofnunar nýrra sjóða.
    Leggur nefndin því til að 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins verði felld brott.

Ákvarðanir endanlegar á stjórnsýslustigi (4. gr.).
    Nefndin leggur til að bætt verði við frumvarpið ákvæði þess efnis að ákvarðanir Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs verði endanlegar á stjórnsýslustigi. Ákvæðið leiðir af stöðu Kríu sem skv. 2. gr. frumvarpsins er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og heyrir stjórnarfarslega undir ráðherra. Í sjálfstæði sjóðsins felst að hann er undanskilinn stjórnunar- og eftirlitsheimildum ráðherra sem getur þannig ekki hlutast til um málefni sjóðsins eða einstök mál umfram það sem frumvarpið býður. Kría telst því ekki vera hefðbundið lægra sett stjórnvald gagnvart ráðherra. Í því felst einnig að kærusamband skv. VII. kafla stjórnsýslulaga verður ekki til staðar milli Kríu og ráðherra. Er þetta mikilvægur þáttur í starfsemi Kríu enda eru ákvarðanir stjórnar um fjárfestingu teknar á öðrum grundvelli en gengur og gerist um hefðbundnar stjórnvaldsákvarðanir.
    Leggur nefndin til að við 4. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein þess efnis að ákvarðanir Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs verði endanlegar á stjórnsýslustigi.
    Auk framangreinds leggur nefndin til að heiti laganna verði: Lög um Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð.
    Að öllu framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verð samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 2. gr.
                  a.      Í stað orðsins „Stofna“ í 1. mgr. komi: Starfrækja.
                  b.      Í stað orðsins „verður“ í 1. mgr. komi: er.
                  c.      Í stað orðanna „Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs“ í 2. mgr. komi: sjóðsins.
     2.      2. mgr. 3. gr. falli brott.
     3.      Við 4. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ákvarðanir stjórnar Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs samkvæmt lögum þessum eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
     4.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð.

    Jón Steindór Valdimarsson og Brynjar Níelsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað, skrifa þeir undir nefndarálitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 5. júní 2020.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Brynjar Níelsson.
Jón Steindór Valdimarsson. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Smári McCarthy. Willum Þór Þórsson.